Vatnsmýri - 102 Reykjavík

Verðlaun voru afhent 14. febrúar 2008 í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar, en alls bárust 136 tillögur í keppnina. Fyrstu verðlaun hlutu skosku arkítektarnir Graeme Massie, Stuart Dickson og Alan Keane. Verkefni þeirra kallaðist, Gagnkvæmni, mótun höfuðborgar. Hún gerir ráð fyrir þéttri en lágreistri borgarbyggð í Vatnsmýri. Auk þess sé Hljómskálagarður stækkaður til suðurs, ný tjörn mynduð í Vatnsmýri og Hringbraut lögð í stokk.

Dómnefnd gaf tillögu Massies og samstarfsmanna hans mest vægi þeirra þriggja sem þóttu í fremstu röð og í umsögn hennar kemur fram að tillaga hans hafi burði til þess að vera útgangspunktur framtíðarþróunar í Vatnsmýri. Að auki mætir umrædd tillaga mjög vel þeirri ósk dómnefndar að hægt sé að áfangaskipta uppbyggingu á svæðinu. Keppnin um skipulag Vatnsmýrarinnar hófst í lok mars 2007 og var þátttaka heimil fagfólki í arkitektúr og skipulagi um allan heim. Keppendur höfðu aðgang að umfangsmiklum gögnum um skipulagsforsendur svæðisins, ásamt skýrslum um samráð við borgarbúa og hagsmunaaðila um þá möguleika sem Vatnsmýrin kynni að bjóða upp á. Í forsendum var ekki tekin afstaða til þess hvort flugvöllur væri áfram á svæðinu heldur kallað eftir hugmyndum um þróunarmöguleika.

Dómnefnd var skipuð þremur borgarfulltrúum og fjórum fagmönnum á sviði skipulags og uppbyggingar. Formaður dómnefndar var Dagur B. Eggertsson en auk hans sátu í dómnefnd borgarfulltrúarnir Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson. Aðrir í dómnefnd voru Joan Busquets, prófessor í borgarskipulagi við Harvard háskóla og fyrrum skipulagsstjóri í Barcelona og arkitektarnir Steve Christer, Kees Kaan, og Hildebrand Machleidt.

Skoða vinningstillögu (PDF)
Greinargerð (PDF)

Umsögn dómnefndar
Kynningarveggspjöld og stuðningsgögn þessarar tillögu eru skýr og skiljanleg og bregðast á sannfærandi hátt við þeim kröfum sem settar eru fram í forsendulýsingu samkeppninnar. Áætlunin hefur burði til að verða útgangspunktur framtíðarþróunar í Vatnsmýri. Hljómskálagarðurinn er stækkaður til suðurs og ný tjörn umkringd fjölda nýrra bygginga gerð að miðpunkti Vatnsmýrarinnar. Göturnar Barónsstígur og Snorrabraut eru framlengdar, frá Þingholtum að Fossvogi og á ræmunni milli þeirra eru helstu íbúðasvæði, ásamt skrifstofuhúsnæði og þyrpingum opinberra bygginga og skólahúsnæðis. Skáhöll lína sker þessa ræmu og tengir hana beint við miðbæinn. Einnig er gert ráð fyrir íbúðasvæðum utan í Öskjuhlíð og norðan Skerjafjarðar og yfirráðasvæði Háskóla Íslands verður stækkað þannig að það nái að tjörninni nýju. Áætlunin er studd með nákvæmum tillögum um umhverfisstjórnun, möguleikum á lotuskiptingu og samþættingu langtímamarkmiða. Borgarmyndin, sérstaklega við ströndina og á eystra íbúðasvæðinu, er dregin grófum línum og umferðarvandi ekki að fullu leystur, en áætlunin virðist nógu burðamikil til þess að þola frekari útfærslu sem tæki til þessara og annarra verklegra atriða.

Umhverfis- og skipulagssvið
Reykjavíkurborgar
Sími: 411 11 11

Borgartúni 12 - 14
105 Reykjavík