Ingólfstorg - Kvosin

Í lok júní 2012 voru birtar niðurstöður í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur við Ingólfstorg og í Kvosinni. Fyrstu verðlaun í samkeppninni hlutu ASK arkitektar en höfundar vinningstillögunnar eru arkitektarnir Þorsteinn Helgason og Gunnar Örn Sigurðsson.

Vinningstillaga (PDF)

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir m.a. „að um sé að ræða metnaðarfulla tillögu sem tekur tillit til sögu Kvosarinnar en sýnir um leið áhugaverða þróunarmöguleika. Styrkur hennar felst meðal annars í skýrri og heildrænni sýn á viðkvæmu og mikilvægu miðborgarsvæði. Hún sýnir markvissa uppbyggingu án niðurrifs eða tilfærslu á gömlum húsum. Tillagan skiptir uppbyggingunni í þrjá áfanga þar sem hver áfangi hefur skýrt hlutverk. Í Vallarstræti verður fjölbreytt verslunar- og þjónustuhúsnæði. Það mun styrkja þjónustu í hjarta miðborgarinnar, auðga mannlíf og skapa áhugaverða upplifun fyrir vegfarendur. Hrynjandi og form nýbygginga fellur almennt vel að nálægri byggð. Samkomusalur við Thorvaldsensstræti 2 er endurbyggður sem skemmti- og ráðstefnusalur. Innangengt verður í veitingasal hótelsins."

Önnur verðlaun féllu í hlut Kanon arkitekta en höfundar þeirrar tillögu eru arkitektarnir Anna Sóley Þorsteinsdóttir, Birkir Einarsson, Halldóra Bragadóttir, Helga Bragadóttir, Helgi B. Thóroddsen, Þorkell Magnússon og Þórður Steingrímsson.
Annað sætið, spjald 1-4 (PDF), spjald 5-8 (PDF)

Þriðju verðlaun hlaut Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt.
Þriðja sætið, spjald 1-3 (PDF), spjald 4-6 (PDF)

Samkeppnin var í tveimur þrepum. Í fyrra þrepi var lögð áhersla á skipulag almenningsrýma á svæðinu og frumhönnun hótels. Einnig átti að huga að heildarmynd svæðisins og tengingum við aðliggjandi almenningsrými með notagildi og umhverfisgæði að leiðarljósi. Alls bárust 68 tillögur í hugmyndasamkeppnina. Seinna þrepið var framkvæmdasamkeppni og voru fimm tillögur valdar úr fyrra þrepi til að forhanna hótel og útfæra almenningsrýmin með nákvæmari hætti. Tillögurnar búa yfir athyglisverðum hugmyndum sem varpa ljósi á margvíslega möguleika svæðisins. Allmargar hugmyndanna fela í sér róttæka umbreytingu á samkeppnissvæðinu. Aðrar þróa hugmyndir að uppbyggingu út frá sögulegu byggðamynstri, staðaranda og svæðinu eins og það er.

Álit dómnefndar, sjá fylgiskjal (PDF)

Umhverfis- og skipulagssvið
Reykjavíkurborgar
Sími: 411 11 11

Borgartúni 12 - 14
105 Reykjavík